Fréttir og tilkynningar


Breytingar á tollalögum, lögum um vörugjald og fleiri lögum

8.1.2014

Þann 20. desember 2013 samþykkti Alþingi lög nr. 141/2013 þar sem m.a. gefur að líta breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,nr. 29/1993, með síðari breytingum.

Breytingarnar öðluðust gildi þann 1. janúar sl.

Tollalög

Lagabreytingar tollalaga nr. 88/2005 fela í sér hækkun á sektarheimild Tollstjóra fyrir ólöglegan innflutning eða önnur brot á XXII. kafla tollalaga úr 300.000 kr. í 3.000.000 kr., sbr. 2. og 3. mgr. 185. gr. tollalaga. Þá hefur afgreiðslugeymslum og tollvörugeymslum verið bætt við upptalningu geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur í 12. tl. 195. gr. þar sem Tollstjóra er heimilt að innheimta eftirlitsgjald vegna tolleftirlits. Að lokum var bráðabirgðaákvæði um greiðslufrest framlengt en í því felst að fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabila á árinu 2014, skuli vera háttað þannig að helmingur af aðflutningsgjöldum viðkomandi uppgjörstímabils skal skilað eigi síðar en á 15. degi næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils og hinn helmingurinn eigi síðar en á 5. degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

Lög um vörugjald

Breytingin á lögum um vörugjald nr. 97/1987 snýr að 10. gr. laganna og í henni felst að nú er Tollstjóra heimilt að endurgreiða vörugjald til aðila sem ekki hafa vörugjaldsskírteini, hafi þeir á tímabilinu selt vörugjaldsskylda vöru til skírteinishafa án vörugjalds. Tilgreina þarf í sérstakri skýrslu um slíka sölu, magn, verð og tegund. Þegar um endanlega framleiðsluvöru er að ræða skal tilgreina innihaldslýsingu.

Lög um virðisaukaskatt

Uppfært var bráðabirgðaákvæði laganna er kveður á um að á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabila á árinu 2014 sé heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils, þó einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI í tollalögum, nr. 88/2005.

Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Lagabreytingar á lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 snýr að 3. mgr. 3. gr. laganna og fela í sér hækkun á hámarksfjárhæð lækkunar vörugjalds sem gjaldanda hlotnast samkvæmt undanþáguflokki 2. tl. 2. mgr. 5. gr. úr 750.000 kr. í 1.000.000 kr.

Athygli er vakin á því að bráðabirgðarákvæði nr. XV þess efnis að bílaleigum sé heimilt á árinu 2013 að selja 20% af þeim fjölda ökutækja sem voru í eigu bílaleigunnar 1. janúar 2013 án þess að komi til uppgreiðslu á mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar var ekki framlengt og gildir því ekki fyrir árið 2014.

Annað

Vert er að vekja athygli á því að samkvæmt kafla 1.1 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2014 mun fjármála- og efnahagsráðherra vera heimilt að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af efniskostnaði og sérfræðiþjónustu sem keypt er fyrir styrktarfé vegna rannsóknar Hjartaverndar á heilbrigði öldrunar. Þá getur ráðherra samkvæmt kafla 7.8 sömu greinar einnig heimilað að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn.

Þá hafa verið gerðar breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi nr. 40/2013 (sjá http://www.althingi.is/altext/143/s/0440.html), lögum um geislavarnir, nr. 44/2002 sem bannar innflutning varnings sem geislavirkum efnum hefur verið blandað í (sjá http://www.althingi.is/altext/143/s/0261.html), lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994 (sjá http://www.althingi.is/altext/143/s/0429.html) og lögum um matvæli, nr. 93/1995 (sjá http://www.althingi.is/altext/143/s/0494.html).

Að öðru leyti er vísað til fréttar frá 30. desember sl. um breytingar á aðflutningsgjöldum o.fl. við tollafgreiðslu vara.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum