Breytingar á ýmsum lögum og reglugerðum
Tollstjóri vill vekja athygli á nokkrum laga- og reglugerðarbreytingum sem Alþingi hefur afgreitt á undanförnum mánuði.
Breytingarnar snúa að tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um úrvinnslugjald, lögum um vaktstöð siglinga og reglugerð um vörugjald á eldsneyti.
Tollalög
Á tollalögum voru gerðar þrjár breytingar. Fyrsta breytingin á tollalögum snýr að 172. grein laganna. Í ákvæðinu er kveðið á um að Tollstjóri skuli beita sektum ef aðili veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti vara, eða vanrækir að leggja fram gögn. Í stað þess að áður þurfti að vera um að ræða stórfellt gáleysi til að Tollstjóri gæti beitt ákvæðinu, þarf nú einungis gáleysi. Er því verið að auka kröfur á innflytjendur að gæta vel að upplýsingum sem fram koma við skil á gögnum til Tollstjóra.Önnur breyting snýst um samræmingu á undanþágum á grundvelli alþjóðasamninga og tvíhliða samninga sem Ísland er aðili að. Í ákvæðinu er nú tekinn af allur vafi að takmörkuð tollskylda eigi við um þá aðila sem tilteknir eru í ákvæðinu, þ.m.t. Atlantshafsbandalagið, Samstarf í þágu friðar og herlið Bandaríkjanna. Sambærileg ákvæði voru sett inn í önnur gjaldalög.
Þriðja breytingin á tollalögum snýr að skráningu gjaldmiðla á útflutningsskýrslur. Fram kom í bráðabirgðaákvæði IV að viðskiptaverð vöru skyldi skráð í erlendum gjaldmiðli við útflutning vegna bráðabirgðaákvæðis í lögum um gjaldeyrismál. Nú hefur þetta ákvæði verið fellt úr gildi.
http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=385
Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
Í breytingunum felst að skýra betur skilin á milli pallbifreiða og grindarbíla. Q-liður 1. tl. 4. gr. fellur brott og ný skilgreining er sett í H-lið 2. tl. sömu greinar þar sem segir:„Grindur með hreyfli og ökumannshúsi og eftir atvikum með viðbættu vöruflutningarými. Með viðbættu vöruflutningarými er átt við vörukassa eða vörupall sem ekki er sambyggður ökumannshúsinu og á hvað varðar lögun, lit eða efni ekki sjónræna samstöðu með því. “
http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=385
Lög um úrvinnslugjald
Tvær breytingar voru gerðar á viðauka við lögin. Gjald á tollskrárnúmer 9207.1001 - 9207.9000 er hækkað úr 13 krónum í 16 krónum og eftirfarandi tollskrárnúmer bætast við viðaukann: 8456.3000 11 kr./kg
8472.9010 16 kr./kg
8539.1000–8539.9000 25 kr./kg
http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=385
Lög um vaktstöð siglinga
Gerðar eru breytingar á lögunum vegna innleiðingar tilskipunar 2010/65/ESB.Í ákvæðunum er kveðið á um að skipstjórar, rekstraraðilar eða umboðsmönnum útgerðar sé gert skylt að afhenda vaktstöð siglinga upplýsingar sem veita ber vegna komu og brottfarar skipa samkvæmt ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Upplýsingarnar skulu veittar rafrænt innan þess tíma sem ráðherra ákveður. Gert er ráð fyrir að vaktstöð siglinga taki við upplýsingunum, varðveiti þær og framsendi til réttra stjórnvalda innan lands s.s. Tollstjóra. Upplýsingarnar skulu síðar vera aðgengilegar viðeigandi stjórnvöldum aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að því gefnu að þau hafi sambærilegar skyldur og samsvarandi íslensk stjórnvöld hvað varðar þagnarskyldu og vernd persónuupplýsinga. Öllum skipum sem koma til hafnar eða láta úr höfn á Íslandi er skylt að fara eftir þessum ákvæðum.
http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=234
Reglugerð um vörugjald á eldsneyti
Í breytingunni felst að skilgreina hvaða skilyrði aðilar þurfa að uppfylla til að fá endurgreitt bensíngjald af flugvélabensíni. Nú þurfa umsækjendur að senda inn umsókn þar sem fram koma upplýsingar um umráðamann vélarinnar, tegund og einkennisstafi vélar, magn bensíns, meðaleyðslu flugvélar og samanlagðan flugtíma á því tímabili sem bensínið var nýtt. Ásamt þessu skal fylgja frumrit reikninga vegna bensínkaupa, samantektarskjal reikninga, staðfesting á umráðum vélar og afrit af loftferðardagbók. Í breytingunni felst að sækja þarf um endurgreiðslu innan þriggja mánaða frá því að eldsneytiskaup áttu sér stað. Breytt reglugerð gildir um eldsneytiskaup sem áttu sér stað 4. apríl 2017 eða síðar.https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=c30bff8e-3be4-47a6-8535-ad466da08315