Fréttir og tilkynningar


Dómur Hæstaréttar, 16. janúar 2019 í máli númer 18/2018

22.1.2019

Í nýföllnum dómi Hæstaréttar nr. 18/2018 er fjallað um það hvort einstaklingur beri ábyrgð á álagi á tekjuskattsstofn maka síns.

Í málinu var um að ræða fjárnám Sýslumannsins á Suðurnesjum í fasteign fyrrum maka A sem hafði sætt skattrannsókn og í kjölfarið endurákvörðun á álagningu opinberra gjalda. Til tryggingar kröfu um vangreidd opinber gjöld fyrrum sambúðarmanns umrædds einstaklings var gert fjárnám í fasteign A, en fyrir lá að A og fyrrum sambúðarmaður hennar höfðu verið samsköttuð. Segir Hæstiréttur að 1. mgr. 116. gr. tekjuskattslaga feli í sér gagnkvæma ábyrgð hjóna og samskattaðs sambúðarfólks á sköttum hvors annars í formi sjálfskuldarábyrgðar. Beiting heimildar samkvæmt 2. mgr. 108. gr. sömu laga feli á hinn bóginn í sér refsikennd viðurlög eða refsiskatt sem yrði beitt gagnvart skattaðila án tillits til sakar hans. Segir Hæstiréttur að með hliðsjón af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um skýrleika refsiheimilda, auk þeirra viðmiða sem mótast hefðu í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að þessu leyti, var talið að löggjafanum hefði verið í lófa lagið að kveða á um það með afdráttarlausum hætti, ef ætlunin hefði verið að láta ábyrgð maka skattaðila einnig ná til afleiðinga af beitingu álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Það hefði löggjafinn ekki gert. Var því ekki fallist á með Sýslumanninum á Suðurnesjum að 1. mgr. 116. gr. laganna fæli í sér heimild til þess að A yrði látin bera fjárhagslegar afleiðingar þeirrar hlutlægu refsingar sem lögð var á fyrrum sambúðarmann hennar í formi álags á skattstofna samkvæmt 2. mgr. 108. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar:

https://www.haestirettur.is/domar/domur/?id=860df09c-e287-49cd-a018-f40b2fe8108e


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum