Fréttir og tilkynningar


Frestun gjalddaga staðgreiðslu launa og staðgreiðslu tryggingagjalds

31.3.2020

Samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru geta launagreiðendur sótt um frest á skilum á allt að þremur greiðslum.

Þær þurfa að vera vegna afdreginnar staðgreiðslu af launum og staðgreiðslu tryggingagjalds sem eru á gjalddaga frá 1. apríl til og með 1. desember 2020.

Heimilt er að óska eftir frestun á gjalddaga og eindaga til 15. janúar 2021 að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum.

Opið fyrir umsóknir um frestun gjalddaga á þjónustusíðu Skattsins

Information in English


Skilyrði frestunar

Rekstrarörðugleikar

Launagreiðandi eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu.

Nánar er fjallað um þau skilyrði sem um ræðir í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar vegna málsins.

Forsendan um verulega rekstrarörðugleika telst ekki uppfyllt ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2020 eða úttekt eigenda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra.

Engin vanskil með opinber gjöld og skýrsluskil

Launagreiðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins, sl. þrjú ár.

Umsókn um frestun hafi borist tímanlega til Skattsins 

Launagreiðandi hafi sótt um frestun á skilum á þjónustusíðu Skattsins í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils (umsókn liggi fyrir). Með umsókninni skal fylgja yfirlýsing launagreiðanda um að skilyrði frestunar séu til staðar. Hægt verður að sækja um frestinn á þjónustusíðu Skattsins. Í umsóknarforminu velur gjaldandi þá gjalddaga sem hann vill fresta og lýsir því yfir með því að haka í þar til gerðan reit að hann telji sig uppfylla skilyrði ákvæðisins fyrir frestun. Skattinum er heimilt að fara sérstaklega fram á að umsækjandi sýni með rökstuðningi og gögnum að við verulega rekstrarörðugleika sé að glíma, svo sem með hliðsjón af lækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu, og að skilyrði ákvæðis fyrir frestun séu að öðru leyti uppfyllt.

Umsókn þarf að hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils og hægt er að sækja um frestun á allt að þremur gjalddögum. Umsóknin tekur bæði til frestunar á gjalddaga afdreginnar staðgreiðslu og staðgreiðslu tryggingagjalds. Ekki verður sótt um frestun að liðnum eindaga.

  • Dæmi: Umsókn vegna gjalddaga 1. apríl þarf að berast í síðasta lagi 15. apríl

Skattinum er heimilt að hafna umsókn um greiðslufrestun telji hann skilyrðum ekki fullnægt.

Frestun staðgreiðsluskila á ekki við um opinbera aðila, þ.e. aðila sem fara með ríkis- eða sveitarstjórnarvald og gildir ekki um staðgreiðslu skatts samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011.

Athygli er vakin á að afgreiðsla Skattsins á greiðslufrestun felur ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði hennar hafi verið uppfyllt á afgreiðsludegi.

Skila á skilagreinum vegna staðgreiðslu með sama hætti og áður. Greiðslufresturinn felur því ekki í sér frest á skilum skilagreina samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Álag á staðgreiðslu

Leiði síðari skoðun Skattsins á umsóknum í ljós að skilyrði greiðslufrestunar hafi ekki verið til staðar skal launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir. Launagreiðandi og forsvarsmenn hans skulu ekki sæta öðrum viðurlögum. 

Frestun greiðslna til sumars 2021

Ef launagreiðandi, sem hefur frestað greiðslum á árinu 2020, verður fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár, getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu þeirra greiðslna sem áður hefur verið frestað, fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Óska þarf eftir auknum fresti og greiðsludreifingu hjá Skattinum fyrir 15. janúar 2021. Við afgreiðslu umsóknar skal Skatturinn m.a. líta til virðisaukaskattsskila umsækjanda á árinu 2020 og umfangs starfseminnar að öðru leyti.

Leiðbeiningar fyrir umsókn

Útbúinn hefur verið rafrænn farvegur fyrir umsóknir um frestun á gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds. Hér að neðan eru leiðbeiningar um hvernig hægt er að bera sig að við að sækja um.

Innskráning á þjónustusíðu

Fyrsta skrefið er að skrá sig inn á þjónustusíðu Skattsins með rafrænum skilríkjum, veflykli staðgreiðslu eða varanlegum aðalveflykli.

Hjá flestum launagreiðendum ætti að birtast kassi líkt og hér til hliðar á forsíðu þjónustusíðu eftir innskráningu. 

 

 

 

 

 

 

 

Að finna umsókn í valmynd

Einnig má finna umsóknina í valmynd síðunnar, undir Vefskil > Staðgreiðsla > Umsókn um greiðslufrest.

 

 

 

 


Umsókn um frestun

Umsóknin er í tveimur þrepum. 

Fyrst er farið yfir þau skilyrði sem eru fyrir frestun og nafn launagreiðanda birt til að forðast misskilning.

Staðfesta þarf með haki í viðeigandi reit að öll skilyrði fyrir frestun séu til staðar hjá launagreiðanda.

 

Uppfyllir ekki skilyrði

Eftir að umsækjandi hefur hakað við að öll skilyrði séu uppfyllt er kannað hvort hann hefur staðið í skilum með opinber gjöld og hvort þau byggjast á áætlun. Skuldi hann umtalsverð opinber gjöld eða hefur ekki skilað lögboðnum skilagreinum síðustu þrjú ár fær hann þessa síðu þar sem honum er bent á að bæta úr annmörkum áður en lengra er haldið.

 

Að velja tímabil

Í þrepi tvö eru valin þau þrjú tímabil sem óskað er eftir að fresta. 

Mögulegt er að velja strax öll þrjú tímabilin eða velja aðeins eitt eða tvö í fyrstu umferð. 

Ekki skiptir máli hvort launagreiðandi sækir um greiðslufrest fyrir eða eftir skil á tímabili, svo framarlega sem sótt er um fyrir eindaga. 

Heimilt er að breyta umsókn eftir að henni hefur verið skilað inn allt fram að eindaga valins tímabils. 

 

Staðfesting sem PDF-skjal

Eftir skil fær umsækjandi kvittun. Ef hann smellir á hnappinn „Sækja kvittun sem pdf skjal“ er hann sendur á samskiptasíðu þar sem kvittunin er geymd. 

Staðfesting á samskiptasíðu

Í samskiptum koma fram allar kvittanir fyrir skilum umsókna,  þ.e. saga umsókna og breytingar á þeim.

 

Kvittun sótt á samskiptasíðu

Þegar kvittunin er opnuð má sækja umsóknina í PDF-skjali stimplaða (rafrænt undirritaða) af Skattinum.

Eigi að sannreyna uppruna skjalsins frá Skattinum má gera það á slóðinni skatturinn.is/sannreyna

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum