Fréttir og tilkynningar


Fríverslunarsamningur milli EFTA og Mið-Ameríkuríkjanna Kostaríka og Panama

29.9.2014

Þann 5. september 2014 tók gildi fríverslunarsamningur EFTA við Mið-Ameríkuríkin Kostaríka og Panama.

Með ályktun alþingis frá 14. maí 2014 var ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss) annars vegar og Mið-Ameríkuríkjanna Kostaríka og Panama hins vegar. Samningur þessi hefur nú verið fullgiltur af samningsaðilum.

Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Mið-Ameríkuríkin tóku rúmt ár, en í upphafi tóku Gvatemala og Hondúras einnig þátt í viðræðunum. Samningunum við Kostaríka og Panama lauk með undirskrift í júní 2013. Samningaviðræður við Gvatemala og Hondúras hafa verið í bið en viðræðum við Gvatemala verður fram haldið á næstunni.

Samningurinn inniheldur, auk ákvæða um viðskipti með fisk og aðra iðnaðarvöru, viðskipti með unnar- og óunnar landbúnaðarvörur, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, opinber innkaup, samkeppnismál, viðskipti og sjálfbæra þróun, samvinnu, stofnanaákvæði, ákvæði um lausn deilumála og aðildarákvæði.

Samningurinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og fyrir ákveðnar óunnar- og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu fimm til fimmtán ára aðlögunartímabili (sjá viðauka IV fyrir Kostaríka og viðauka V fyrir Panama).

Uppbygging samningsins hvað vörusviðið varðar er að nokkru leiti ólík öðrum samningum EFTA. Í stað eins kafla um viðskipti með iðnaðarvörur, sjávarfang og unnar landbúnaðarvörur ásamt sérstaks tvíhliða samnings um óunnar landbúnaðarvörur, er vörusviðinu nú skipt upp í tvö kafla sem dekka allt vörusviðið undir einum samningi. Í þessu nýja módeli er annarsvegar kafli sem fjallar um viðskipti með sjávarfang og aðra iðnaðarvöru og hinsvegar kafli sem fjallar um viðskipti með allar landbúnaðarvörur. Þannig eru viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur nú hluti heildar samningsins. Þetta er því fyrsti samningur EFTA þar sem sérstakur tvíhliða landbúnaðarsamningur um óunnar landbúnaðarvörur fylgir ekki samningnum.

Kaflinn um landbúnaðarhlutann kveður á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Um tollaívilnanir fyrir landbúnaðarvörur er fjallað í tvíhliða viðaukum við kaflann um landbúnaðarvörur, á milli Íslands og Kostaríka annarsvegar (sjá viðauka IX) og Íslands og Panama hinsvegar (sjá viðauka XII). Munu Mið-Ameríkuríkin t.d. bæði fella niður tolla á lifandi hross og íslenskt lambakjöt og mun Ísland meðal annars fella niður tolla á ýmsar matjurtir og ávexti, kaffi, kakó og ávaxtasafa.

Samningana við Mið-Ameríkuríkin Kostaríka og Panama og ítarlegar upplýsingar um þá er að finna hér.

Ný tegund tolls - tollskýrslugerðarhugbúnaður og nýir tollskrárlyklar vegna innfluttra vara

Vegna fríverslunarsamningsins öðlaðist ný tegund tolls gildi þann 5. september 2014. Lykill fyrir tegund tollsins er YN fyrir Kostaríka og YM fyrir Panama.

Landalyklar fyrir upprunalöndin sem fríverslunarsamningurinn nær til:

  • CR Kostaríka
  • PA Panama

Tollskýrslugerðarhugbúnaður: Stofna þarf nýja tegund tolls, YN kóda fyrir Kostaríka og YM kóda fyrir Panama, í töflu tegunda tolla og landakódar á YN og YM tolli skulu vera: CR og PA.

Útfylling aðflutningsskýrslu/útflutningsskýrslu
Þegar óskað er eftir fríðindameðferð við innflutning samkvæmt nefndum samningum skal færa lykilinn YN eða YM fremst í reit 33 við gerð aðflutningsskýrslu (E-1) eða vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu. Í reit 8 og 34 skal tilgreina landalykilinn viðkomandi ríkis, t.d. CR(Kostaríka). Í reit 14 skal tilgreina skammstöfunina EUR og númer EUR. 1 flutningsskírteinis (t.d. EUR 1234567) eða textann "EUR YFIRLÝS" ef upprunayfirlýsing er á vörureikningi.

Ný útgáfa af tollskrárlyklum vegna innflutnings, þar sem YN og YM tegund tolls hefur verið skráð á öll viðkomandi tollskrárnúmer vegna innflutnings, er nú aðgengileg á vefsíðu tollskrárlykla á vef Tollstjóra. Nýja útgáfan gildir afturvirkt frá 5. september 2014.

Þegar óskað er eftir fríðindameðferð við útflutning samkvæmt nefndum samningum skal færa lykilinn EX í reit 1 (markaðssvæði) við gerð útflutningsskýrslu (E2) eða vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu. Í reit 17, ákvörðunarland, skal tilgreina landalykil viðkomandi ríkis. Ákvörðunarland er endastöð vöruflutninganna. Í reit 34a, upprunaland, skal skrá IS, ef íslensk upprunavara, en landalykil viðkomandi aðildarríkis Mið-Ameríku (CR eða PA) ef þarlend upprunavara, áður flutt beinum flutningi til Íslands, er að fara aftur til aðildarríkis Mið-Ameríku. Færa skal í reit 44 þriggja bókstafa skammstöfun fyrir skírteinið EUR, bókstafinn A og númer þess þar fyrir aftan (dæmi: EURA123456) en orðið: YFIRLÝSING ef upprunayfirlýsing er gefin á vörureikningi.

Að öðru leyti vísast til leiðbeininga um tollskýrslugerð vegna innflutnings og útflutnings.

Nánari upplýsingar

Í VEF-tollskránni á vef Tollstjóra er unnt að sjá hvort YM eða YN tegund tolls, tollfríðindameðferð skv. fríverslunarsamningnum, er valkostur á tollskrárnúmeri.Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum