Álagning 2011 – helstu niðurstöður
Upplýsingar um helstu niðurstöður álagningar 2011
Niðurstöður álagningar opinberra gjalda á tekjur einstaklinga liggja nú fyrir. Í stuttu máli má segja að framtölin sýni svipaða mynd af tekjum og eignum landsmanna og í fyrra.
Tekjur og frádráttur
Tekjur lækka annað árið í röð og tekjuskattsstofn lækkar sömuleiðis. Fyrir ári vógu greiðslur úr séreignarsjóðum upp á móti lægri launum. Þær eru enn mjög háar en þó mun lægri en í fyrra. Atvinnuleysisbætur lækka einnig en eru enn mun hærri en menn áttu að venjast fyrir hrun efnahagslífsins. Nú hækka laun og starfstengdar greiðslur um 10,9 milljarða á meðan greiðslur úr lífeyrissjóðum lækka um rúma 11,9 milljarða. Heildartekjuskattsstofn er nú 812.448 milljarðar, tæpum 3,9 milljörðum lægri en í fyrra.
Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hækka um 1,7 milljarða og eru sá einstaki tekjuliður sem hækkar mest. Félagsleg aðstoð sveitarfélaga eykst einnig mikið.
Frádráttarliðir á skattframtölum hækka samtals um 6,7%, eða tæpa 3,6 milljarða. Munar þar mest um nýjan frádrátt vegna átaksins „Allir vinna“, sem er tæplega 1,6 milljarðar. Þeim sem færa frádrátt vegna iðgjalda í séreignarsjóði fækkar um rúm 6%.
Fjármagnstekjur
Fjármagnstekjur lækka nú þriðja árið í röð og meira en áður eða um tæpa 73 milljarða. Fjármagnstekjur voru 244,2 milljarðar við álagningu árið 2008 en eru nú tæpir 66,3 milljarðar. Söluhagnaður og arðgreiðslur hækkuðu mikið framan af síðasta áratug en undanfarið hefur dregið mikið úr söluhagnaði sem er nú um 7,1 milljarður. Söluhagnaður lækkar um 46,1% frá því í fyrra. Arðgreiðslur eru nú 12,1 milljarður, eða 70,5% minni en fyrir ári.
Þá vekur það athygli að vaxtatekjur af innstæðum í íslenskum bönkum lækka um 39 milljarða, eða 58,4%. Vextir af verðbréfum hækka hins vegar um 17,9%, eða tæpa 1,9 milljarða. Vextir af verðbréfum eru öðrum þræði innleystur söluhagnaður og því gætir hér áhrifa breyttra markaðsaðstæðna, gengis og verðlags. Þá hafa innstæður minnkað en verðbréfaeign aukist.
Eignir, skuldir og vaxtagjöld
Matsverð eigna og skulda landsmanna lækkar nú í fyrsta skipti. Eignir rýrna um rúma 338,2 milljarða en skuldir lækka um rúma 14,4 milljarða. Samanlagt eigið fé rýrnar því þriðja árið í röð og nú um 323,8 milljarða. Undanfarin þrjú ár hafa skuldir aukist meira en eignir en þetta er í fyrsta skipti sem eignir rýrna meira en skuldir. Skuldir vegna íbúðarkaupa breytast lítið og er lækkunin því vegna annarra skulda.
Frá skattframtali 2008 hafa eignir aukist um rúma 86 milljarða. Á sama tíma hafa skuldir aukist um tæpa 530 milljarða. Matsverð fasteigna lækkar um 9,8% á milli ára en það skýrir 243,6 milljarða lækkun eigna. Þá lækka innstæður um tæpa 83 milljarða sem eru 13,5%. Landsmenn áttu 533,1 milljarð á bankareikningum í árslok 2010. Verðbréfaeign hækkar um rúman 18,1 milljarð á sama tíma og nafnverð hlutabréfa lækkar um 17,6 milljarða, eða 25,8%. Bifreiðaeign landsmanna lækkar um 4,6% í verði, eða um 8,6 milljarða, og bifreiðaeigendum fækkar um 1.168.
Vaxtagjöld hafa haldist í hendur við hækkun skulda en nú lækka skuldir milli ára. Vaxtagjöld af íbúðarlánum standa nokkurn veginn í stað en vaxtagreiðslur af öðrum lánum lækka um 9 milljarða, eða um 17,5%.
Skattar á tekjur og eignir
Nú er í fyrsta skipti lagður á margþrepa tekjuskattur. Tekjuskattur hækkar þó að skattstofninn sé lægri og færri greiði skatt. Tekjuskattur er nú tæpir 91,2 milljarðar, 3,3 milljörðum hærri en í fyrra. Þetta er hækkun um 3,7%. Þá fækkar þeim sem greiða tekjuskatt um 4,6%. Útsvar er 109,7 miljarðar og lækkar um 0,4% á milli ára.
Álagðir tekjuskattar til ríkis, almennur tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur, lækka um tæpa 2,3 milljarða, eða 2,2%. Hér munar um fjármagnstekjuskatt sem lækkar um tæpa 5,6 milljarða á milli ára, eða 35,5%. Töluverðar breytingar hafa orðið á forsendum fjármagnstekjuskatts. Skattprósentan var hækkuð úr 10% í 15% á miðju ári 2009 og í 18% á árinu 2010. Frítekjumark er þó vegna vaxtatekna undir kr. 100 þúsund. Þá er sérregla varðandi leigutekjur af íbúðarhúsnæði, þar sem 70% af tekjunum mynda stofn til álagningar fjármagnstekjuskatts.
Alls eru lagðir 6,6 milljarðar á eignir framteljenda í formi auðlegðarskatta. Nú eru 4,8 milljarðar lagðir á 4.772 gjaldendur í auðlegðarskatt sem er hækkun um 986 milljónir, eða 25,8%. Að auki er nú lagður á viðbótarauðlegðarskattur. Hann leggst á muninn á nafnverði og raunvirði hlutabréfaeignar í árslok 2009. Sá hluti auðlegðarskattsins er að þessu sinni lagður á 3.349 gjaldendur og er tæplega 1,8 milljarðar króna.
Barnabætur og vaxtabætur
Vaxtabætur hækka um 6% milli ára og eru um 12 milljarðar. Til viðbótar kemur sérstök vaxtaniðurgreiðsla, þ.e. nýjar bætur sem ríflega 102 þúsund gjaldendur fá og nema 6,3 milljörðum. Alls eru því greiddir 18,3 milljarðar í bætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum.
Barnabætur lækka hins vegar um tæpa tvo milljarða sem er 19,7% lækkun. Foreldrum sem fá reiknaðar barnabætur fækkar um 13.836 milli ára. Skýrist það af því að nú eru allar barnabætur tekjutengdar, en hluti bóta vegna barna yngri en sjö ára var það ekki áður. Tekjuskerðing vegna annarra barnabóta er líka aukin.
Ítarleg töluleg greining á niðurstöðum álagningar verður birt í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, sem kemur út fljótlega. Þar mun verða ítarleg töluleg greining á niðurstöðum álagningarinnar einkum með samanburði við fyrri ár. Sömu upplýsingar munu verða birtar á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is.