Fréttir og tilkynningar


Athugasemd við grein í Úlfljóti, tímariti laganema

9.3.2011

Með grein í Úlfljóti, tímariti laganema, 3. tölubl. 2010, sem út kom í febrúar 2011, setur Garðar Valdimarsson hrl. fram skoðanir sínar á því hvernig eigi að skattleggja kauprétti og sölurétti starfsmanna sem þeir fá endurgjaldslausa frá vinnuveitendum sínum. Þar sem nú eru til meðferðar hjá dómstólum mál, sem að hluta til tengjast þessum sömu hugtökum, þ.e. kaupréttum og söluréttum, á grundvelli ákvarðana ríkisskattstjóra, þykir embættinu rétt að birta athugasemd vegna þessa.

Til meðferðar hafa verið í dómskerfinu tveir úrskurðir ríkisskattstjóra þar sem tekist er á um hvernig eigi að skattleggja tekjur af starfstengdum samningum sem vörðuðu kaup á hlutabréfum sem tryggð voru með sölurétti. Niðurstaða yfirskattanefndar í öðru málinu og héraðsdóms Reykjavíkur í þeim báðum hefur verið sú að staðfesta skattlagningu þessara tekna á þeim forsendum sem ríkisskattstjóri byggði á. Mál þessi bíða nú fyrirtöku í Hæstarétti og er greinarhöfundur tilvitnaðrar greinar flutningsmaður annars málsaðilans. Óvenjulegt er að málflytjandi fyrir Hæstarétti setji sínar röksemdir í málinu fram sem fræðigrein óskylds aðila við þessar aðstæður.

Í þessum málum snýst efnislegur ágreiningur um hvernig eigi að skattleggja hlunnindi sem fólust í samningum, sem stjórnandi félags fékk vegna starfssambands síns, um kaup á hlutabréfum í félaginu þar sem áhættan af verðlækkun bréfanna var hjá félaginu sjálfu. Samningar þessir, sem algengt var að stjórnendur félaga gerðu við sjálfa sig og sína nánustu samstarfsmenn, byggðust ýmist á þríþættu samkomulagi eða voru í formi þriggja samtengdra samninga sem veittu réttindi og lögðu skyldur á báða aðila. Eitt samningsformið fjallaði um kaup á hlutabréfum, annað um eingreiðslulán sem veitt var eða útvegað var til kaupanna og það þriðja hafði að geyma söluréttartryggingu sem félagið veitti stjórnandanum og fól í sér að hann gat gengið skaðlaus frá samningunum að tilteknum tíma liðnum ef verðþróun hlutabréfanna hafði ekki skilað honum ávinningi á gildistíma söluréttarins. Ríkisskattstjóri hefur litið svo á að í þessum samtengdu samningum felist starfstengd hlunnindi sem líta beri á sem kaupréttarhlunnindi þegar samningarnir ganga eftir með þeim hætti að söluréttarhafinn njóti tekna af verðhækkun hlutabréfanna án nokkurrar áhættu. Umgjörð samninganna og samningsformið breytir ekki skattskyldunni þótt samningunum sé stillt upp með þessum hætti.

Mál þessi fjalla þar af leiðandi ekki um skattlagningu á endurgjaldslausum sölurétti einum og sér eins og greinarhöfundur lætur liggja að í grein sinni í Úlfljóti. Því eiga dæmin sem birtast í áðurnefndri grein á bls. 264 til 267 ekki við í málum sem þessum. Orkar framsetning þeirra tvímælis í þessu samhengi.

Við ríkjandi aðstæður, þar sem mál þessi eru nú fyrir Hæstarétti telur ríkisskattstjóri ekki rétt að fjalla um þau opinberlega eða leiðrétta einhliða og misvísandi framsetningu í tilvitnaðri grein lögmannsins, frekar en að framan greinir.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum