Fréttir og tilkynningar


Sameinað svið skatteftirlits og skattrannsókna

7.2.2022

Þann 1. febrúar tók gildi nýtt skipulag innan Skattsins, með sameiningu tveggja sviða í svið Eftirlits og rannsókna. Í kjölfar sameiningar embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins við Skattinn á nýliðnu ári var farið í umfangsmikla umbótavinnu með þátttöku starfsmanna sameinaðs embættis.

Í kjölfarið og á grundvelli þeirrar vinnu var ákveðið að sameina verkefni ríkisskattstjóra á eftirlitssviði og verkefni skattrannsóknarstjóra undir nýtt sameinað svið.

Með sameiningu skatteftirlits og skattrannsókna er stefnt að eflingu og auknum árangri í málaflokknum í samræmi við markmið sameiningar embætta um hagkvæmni, skilvirkni, gagnsæi og einföldun kerfisins. Með sameiningu mannauðs og samþætta nálgun í málaflokknum opnast færi á aukinni yfirsýn, nýjum áherslum og auknum árangri í málaflokknum, með áherslu á notkun gagnavísinda til greininga og áhættumats. Með eflingu skatteftirlits og skattrannsókna er stuðlað að auknum þunga skattyfirvalda til að stemma stigu við skattundanskotum, styrkingu tekjuöflunar ríkissjóðs auk þess að efla getu til að takast á við breytingar sem leiða af alþjóðavæðingu og skipulagðri glæpastarfsemi.

Eftirlits- og rannsóknasvið hvílir á þremur stoðum sem kallast Eftirlit, Rannsóknir og Viðurlög.

Eftirlit, eða eftirlitsdeildin, hefur í meginatriðum það hlutverk að kanna réttmæti skattskila fyrir og eftir álagningu opinberra gjalda. Það skiptist í nokkra undirflokka þ. á m. almennt skatteftirlit, peningaþvætti, milliverðlagningu (Transfer Pricing) og stórfyrirtækjaeftirlit.

Rannsóknir, eða rannsóknadeildin, rannsakar ætluð brot gegn skattalögum auk brota á lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Ætluð brot sem teljast stórfelld er vísað til áframhaldandi rannsóknar hjá lögreglu í kjölfar frumrannsóknar rannsóknadeildar.

Viðurlög, eða viðurlagadeildin, hlutast til um refsimeðferð mála eftir að rannsókn lýkur. Viðurlagadeild leggur á sektir vegna upplýstra brota allt að 100 milljónum króna.. Viðurlagadeild kemur einnig að ýmsum rannsóknaraðgerðum, svo sem kyrrsetningum eigna, kröfum fyrir dómstólum um húsleitir eða afhendingu gagna.

Ákvörðunum Eftirlits- og rannsóknasviðs um endurákvörðun skatta í kjölfar aðgerða sviðsins má skjóta til yfirskattanefndar. Hið sama á við um ákvörðun sviðsins um sekt.

Bryndís Kristjánsdóttir stýrir nýju sviði.

Upplýsingar um starfsemi Eftirlits- og rannsóknasviðs verða uppfærðar á vef Skattsins eftir því sem tilefni er til. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum