Skattframtal 2023 - skilafrestur til 14. mars
Opnað hefur verið fyrir skil á skattframtali einstaklinga 2023, vegna tekna 2022, á þjónustuvef Skattsins. Frestur til að skila er til 14. mars. Allar helstu upplýsingar eru foráritaðar inn á framtalið og því fljótlegt og auðvelt að yfirfara upplýsingar, bæta við ef eitthvað vantar og staðfesta að lokum.
Opna framtalið á þjónustuvef
Auðkenning
Til að opna framtalið þarf að nota rafræn skilríki eða veflykil. Unnt er að panta veflykil og fá hann sendan í heimabanka. Mælt er með notkun rafrænna skilríkja sem öruggari innskráningu.
Upplýsingar um rafræn skilríki
Auðkenning barna yngri en 18 ára
Þau sem náðu 16 ára aldri á árinu 2022 þurfa að skila skattframtali í fyrsta sinn nú árið 2023. Þau sem ekki eiga rafræn skilríki geta sótt um veflykil og nýtt hann til auðkenningar á þjónustusíðu. Mögulegt er að fá veflykil sendan í pósti á lögheimili eða sendan í heimabanka viðkomandi.
Upplýsingar um rafræn skilríki aðila undir 18 ára
Sækja veflykil
Erlendis búsettir
Þau sem búsett eru erlendis geta þurft að skila skattframtali á Íslandi þrátt fyrir búsetu erlendis, t.d. ef viðkomandi hefur fengið tekjur frá Íslandi á árinu 2022, á eignir á Íslandi eða sækist eftir skattalegri heimilisfesti, svo dæmi séu tekin.
Eigi aðilar erlendis búsettir þess ekki kost að nýta sér rafræn skilríki og eigi ekki nú þegar virkan veflykil er hægt að sækja um að fá nýjan veflykil sendan. Fylla þarf út þar til gert form og verður beiðni um veflykil afgreidd eins fljótt og auðið er.
Sækja veflykil erlendis búsettra
Leiðbeiningar
Framtalsleiðbeiningar er hægt að nálgast inni í framtalinu með því að smella á bláa spurningamerkið við hvern kafla. Þá er einnig hægt að fá leiðbeiningar í bæklingaformi. Vakin er sérstök athygli á einfölduðum leiðbeiningum þar sem stiklað er á stóru yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga við framtalsskil. Sá bæklingur er aðgengilegur á fimm tungumálum.
Framtalsleiðbeiningar
Álagning
Niðurstaða álagningar mun liggja fyrir eigi síðar en 31. maí 2023 og verður hún birt á þjónustuvef Skattsins.