Tilkynning vegna umbúðagjalds á plastpoka til heimilisnota
Þann 13. júní sl. felldi yfirskattanefnd úrskurð í máli nr. 100/2023 þar sem deilt var um lögmæti álagningar úrvinnslugjalds á plastpokum til heimilisnota.
Í þessu tilviki var annars vegar um að ræða nestispoka og hins
vegar svartra ruslapoka sem voru flokkaðir í tollskrárnúmer 3923.2109. Niðurstaða
nefndarinnar var sú að umræddir pokar yrðu ekki taldir til umbúða í skilningi
1. mgr. 7. gr. laga nr. 162/2002 og reglugerðar nr. 1124/2005 og bera þar af leiðandi ekki úrvinnslugjald.
Byggðist niðurstaðan helst á því að hlutverk umbúða er að greiða fyrir flutningi vöru frá framleiðanda, þ.e. frá framleiðanda vöru sem pakkað er til neytanda eða notanda vörunnar. Þar sem pokarnir sem um ræddi voru seldir sem vara til heimilisnota töldust þeir ekki uppfylla það skilyrði að vera notaðir sem umbúðir við pökkun, verndun, meðhöndlun og afhendingu framleiðsluvöru til notanda eða neytanda. Að þessu virtu taldi nefndin að umræddir pokar skyldu ekki bera úrvinnslugjald.
Úrvinnslugjald hefur verið lagt á aðra poka sem fluttir hafa verið inn frá 13. júní 2019 og telja má sambærilega þeim pokum sem voru andlag deilu í fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar.
Upplýsingar um útlit, gerð og notagildi pokanna liggja ekki fyrir hjá tollyfirvöldum við innflutning og af þeim sökum er tollyfirvöldum ófært að ákvarða hvaða aðrir pokar sem fluttir hafa verið inn hafi ranglega gjaldfærðir.
Innflytjendur plastpoka til heimilisnota geta sótt um leiðréttingu
Í ljósi þessarar stöðu er hér með skorað á þá innflytjendur sem flutt hafa inn poka sem voru flokkaður í tollskrárnúmer 3923.2109 frá 13. júní 2019, og telja þá vera til heimilisnota og falla þar með undir forsendur fyrrnefnds úrskurðar að senda tollyfirvöldum þau gögn sem þeir kunna að hafa undir höndum sem sýnt geta fram á undanþágu frá gjaldskyldu pokanna.
Form leiðréttingarbeiðni
Til leiðbeiningar og til að stuðla að eðlilegum framgangi skoðunar tollyfirvalda er æskilegt að innsend gögn séu í formi leiðréttrar aðflutningsskýrslu (afgreiðsla 2) ásamt myndum af pokunum, ef mögulegt er, ásamt því að bætt verði eftirfarandi undanþágukóðum í reit 14 eða eftir atvikum 44 (SAD) á tollskýrslu.
- UND T0035 (fyrir tímabilið 13. júní 2019 – 28. febrúar 2023)
- UND T0036 (fyrir skýrslur afgreiddar eftir 28. febrúar 2023)
Senda skal leiðréttingar og gögn í gegnum SAD kerfið fyrir þær sendingar sem voru afgreiddar þar annars á tollafgreiðsludeild Skattsins, Katrínartún 6, 105 Reykjavík með skýringunni úrvinnslugjald – endurupptaka.
Tollyfirvöld munu þá taka gögnin til skoðunar og breyta fyrri álagningu ef tilefni er til endurupptöku. Öll frekar samskipti varðandi endurupptökubeiðnir fara fram í gegnum tollakerfið. Vakin skal athygli á því að erindi verða ekki tekin til efnislegrar meðferðar fyrr en að liðnum þeim fresti sem gefinn er hér að neðan.
Tollyfirvöld skora á innflytjendur plastpoka sem ætlaðir eru til heimilisnota að senda umbeðin gögn fyrir 1. október 2023.
Nýtt tollskrárnúmer í vinnslu
Framvegis skal bæta kóðanum UND T0036 á þær skýrslur sem innflytjendur telja innihalda poka, undanþegna úrvinnslugjaldi á umbúðir. Unnið er að stofnun nýs tollskrárnúmers fyrir umrædda poka en tilkynning þess efnis verður send þegar búið er að stofna númerið.