Fréttir og tilkynningar


Tímabundinn innflutningur ökutækja

8.4.2019

Tollstjóri hvetur innflytjendur ökutækja á erlendum skráningarmerkjum sem nota á tímabundið á landinu að kynna sér vel innflutningsheimildir á heimasíðunni

Ökutæki einstaklinga

Einstaklingi með fasta búsetu/lögheimili erlendis er heimilt að flytja ökutæki á erlendu skráningarmerki tímabundið til landsins, til persónulegra nota. Ökutækið skal flutt inn með innflytjanda, en eigi síðar en einum mánuði eftir komu viðkomandi til tímabundinnar dvalar. Taki viðkomandi upp fasta búsetu/lögheimili á Íslandi ber honum að tollafgreiða ökutækið eða flytja það úr landi. Einungis innflytjandi, eða samferðamenn hans sem einnig eru búsettir erlendis, hafa heimild til að nota ökutækið meðan á dvöl stendur. Óheimilt er að nota slík ökutæki til fólks- eða vöruflutninga í atvinnuskyni.

Einstaklingur með fasta búsetu/lögheimili erlendis og kemur tímabundið til landsins sem ferðamaður getur notað ökutæki sitt að hámarki í 12 mánuði, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ef ferðamaður tekur upp fasta búsetu/lögheimili á landinu ber að tollafgreiða ökutækið um leið, þó svo að 12 mánuðir séu ekki liðnir. Hafa skal afrit af yfirlýsingu um tímabundinn innflutning ökutækis (E-9) aðgengilegt í ökutæki meðan á dvöl stendur. Ferðamaður sem kemur með ferjunni Norröna til landsins skal hafa yfirlýsingu (E-9) aðgengilega í ökutæki, eða afrit af bókun ökutækis til og frá landinu.

Einstaklingur með fasta búsetu/lögheimili erlendis sem kemur tímabundið til landsins í nám eða vinnu hefur heimild til að flytja ökutæki á erlendum skráningarmerkjum tímabundið til landsins. Honum er heimilt að hafa ökutækið á landinu að hámarki í 12 mánuði, frá komu hans til landsins og meðan hann er skráður með tímabundið aðsetur á Íslandi (utangarðsskrá), en um leið og föst búseta/lögheimili er skráð ber að tollafgreiða ökutæki, þó svo að 12 mánuðir séu ekki liðnir. Hafa skal afrit af yfirlýsingu um tímabundinn innflutning ökutækis (E-9) aðgengilegt í ökutæki meðan á dvöl stendur.

Einstaklingur með fasta búsetu/lögheimil á Íslandi hefur ekki heimild til að flytja ökutæki á erlendu skráningarmerki tímabundið til landsins. Ber honum að tollafgreiða ökutæki við komu til landsins.

Hópbifreiðar og önnur ökutæki sem flutt eru til landsins tímabundið í atvinnuskyni

Hópbifreiðar á erlendum skráningarmerkjum sem koma og fara með einn og sama hópinn skulu skráðar á farmskrá hjá farmflytjanda og hafa yfirlýsingu um tímabundinn innflutning ökutækis (E-9) aðgengilegt í ökutæki meðan á dvöl stendur.

Hópbifreiðar eða önnur ökutæki á erlendum skráningarmerkjum sem nota á tímabundið á landinu í atvinnuskyni skulu vera á farmskrá við komuna til landsins. Ökutækin skulu skráð í bráðabirgðaafgreiðslu og greiða tiltekin gjöld við komuna til landsins. Heimilt er að vera með ökutæki í allt að 12 mánuði á landinu ef gjöld eru greidd. Fari tímabundinn innflutningur út fyrir tímamörk heimildar eða brjóti á annan hátt gegn skilyrðum fyrir tímabundnum innflutningi, er Tollstjóra heimilt að fjarlægja skráningarmerki án viðvörunar og leggja aðflutningsgjöld á viðkomandi ökutæki eins og um almennan innflutning væri að ræða.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum