Fréttir og tilkynningar


Vanræktu að telja fram 110,5 milljónir króna og 594 milljónir króna vegna gjaldmiðlasamninga

30.12.2020

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur (24.06.2019) vegna skila á efnislega röngum skattframtölum, en fjármagnstekjur að fjárhæð 110,5 milljónir vegna uppgjörs á framvirkum gjaldmiðlasamningum höfðu ekki verið taldar fram.

Ákærði krafðist frávísunar málsins vegna banns við endurtekinni málsmeðferð (ne bis in idem). Að mati Landsréttar var skilyrðum um nauðsynlega samþættingu að efni til og í tíma fullnægt, og því var kröfu um frávísun hafnað. Þá krafðist ákærði sýknu þar sem lagaákvæði um skattalega meðferð tekna sem stafa frá afleiðusamningum væru óskýr og væri óheimilt að skattleggja tekjur af afleiðusamningum sem vaxtatekjur. Væri sú túlkun rétt hefði bankanum borið að standa skattyfirvöldum skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af umræddum viðskiptum. Landsréttur féllst ekki á að ákvæði tekjuskattslaga veiti ekki fullnægjandi stoð fyrir því að unnt sé að refsa fyrir þessa háttsemi, það leysi ekki ákærða undan refsiábyrgð á framtali tekna sinna að bankinn hafi ekki haldið eftir staðgreiðslu skatts af tekjum af viðskiptunum, og var tekið fram að í samningi ákærða við bankann um gjaldeyrisstýringu bæri bankinn ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á skattalegum afleiðingum samninganna sem um ræddi. Afleiðusamningarnir leiddu til hagnaðar fyrir ákærða og væru þær tekjur skattskyldar skv. tekjuskattslögum. Ákærði var dæmdur í 4 mánaða fangelsi og til greiðslu 19,3 milljóna sektar en fullnustu refsingar var frestað vegna dráttar málsins, en meðferð málsins hafði staðið yfir í um níu ár, málinu verið frestað m.a. þar til niðurstaða fengist í máli hjá Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem reyndi á meginregluna um bann við endurtekinni málsmeðferð refsiverðrar háttsemi.

Annar sambærilegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur (04.01.2019) var einnig staðfestur. Það mál snerist um gjaldmiðlasamninga á árunum 2006-2008. Undandregnar fjármagnstekjur voru tæplega 600 milljónir. Var kröfu um frávísun hafnað en sakborningur taldi að tekjur hans af viðskiptunum hafi borið að skattleggja sem tekjur af sjálfstæðri starfsemi. Þessu hafnaði Landsréttur. Viðkomandi stundaði viðskiptin í eigin nafni og lá ekkert fyrir um að hann hefði stundað viðskiptin í atvinnuskyni. Dómsorðið hljóðaði upp á tæplega 104 milljónir í sekt og átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fullnustu refsingar var frestað vegna dráttar málsins.

Dómur Landsréttar 18. desember 2020 í máli nr. 388/2019

Dómur Landsréttar 18. desember 2020 í máli nr. 534/2019


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum