Fréttir og tilkynningar


Vegna skila fagaðila á skattframtölum lögaðila 2017

20.2.2017

Ríkisskattstjóri áréttar að ef einstakir fagaðilar fylgja ekki skilmálum um jöfn skil á árinu 2017 verður ekki unnt að veita framlengdan skilafrest á næsta ári.

Samkvæmt 2. gr. auglýsingar nr. 77/2017, sem birt var í B-deild stjórnartíðinda 27. janúar sl. er almennur skilafrestur lögaðila á skattframtölum til 31. maí n.k. Í 5. gr. tilvitnaðar auglýsingar er þó tekið fram að skil löggiltra endurskoðenda, bókara og annarra fyrirtækja sem í atvinnuskyni annast bókhald og framtalsskil fyrir viðskiptavini sína sæti sérstökum skilmálum umfram almenna skilafresti, er felist í jöfnum skilum. Með jöfnum skilum er átt við jöfn skil frá upphafsdegi skila til lokadags, þ.e. 1. mars til 10. september. Áréttað er sérstaklega að hámark skila í ágúst og september skal aldrei fara fram úr 20% hvorn mánuð fyrir sig.

Í lok tilvitnaðrar 5. greinar er tekið fram að veruleg frávik frá settum skilmálum leiða til þess að viðkomandi fagaðili fær ekki framlengdan frest til skila ári síðar. Lögð er sérstök áhersla á að fagaðili, sem brotið hefur skilmála við skil á árinu 2017, sé bundin við að skila skattframtölum viðskiptavina sinna í almennum skilafresti 2018, þ.e. fyrir 31. maí  2018 ella muni þau framtöl sem berast eftir það tímamark teljast of seint fram komin og munu eftir atvikum sæta kærumeðferð í samræmi við ákvæði 2. mgr. 95. gr. tekjuskattslaga.

Með bréfum dags.  1. febrúar 2017 til Félags löggiltra endurskoðenda, Félags viðurkenndra bókara og Félags bókhaldsstofa, sem einnig eru efnislega birt á vef ríkisskattstjóra, er tekið fram að skilafrestur umfram almennan skilafrest lögaðila sé háður því að fallist sé á að farið verði eftir þeim skilmálum sem settir eru fram. Helstu áherslur eru þessar:

  • Skil skattframtala og ársreikninga verði með rafrænum hætti
  • Skattframtölum stærri lögaðila skal skilað fyrir 31. maí og með jafnri dreifingu. Til stærri lögaðila teljast þeir sem eru með veltu yfir 600 milljónir kr. og eignir yfir 300 milljónir króna
  • Skattframtölum minni lögaðila, þ.e. undir framangreindum stærðarmörkum, skal skilað með jafnri dreifingu frá upphafi framtalstímabils, þ.e. 1. mars til 10. september. Tekið er fram að lokaskiladagur á árinu 2017 verði þó 20. september og sé sú dagsetning endanleg. Að lokum er áréttað að hámark skila í ágúst og september takmarkist við 20% hvorn mánuð fyrir sig.
  • Skattframtölum einstaklinga utan atvinnurekstrar skal skilað fyrir 7. apríl og í atvinnurekstri fyrir 18. apríl 2017.
  • Í IV. kafla bréfanna eru talin upp nokkur almenn skilyrði um framsetningu skattframtala og ársreikninga sem ekki verður fjölyrt um hér.

Að lokum skal vakin athygli á því að meginforsendan fyrir því að einstökum fagaðilum eða skrifstofum fagaðila verði veittur framlengdur skilafrestur um fram auglýstan almennan skilafrest 31. maí er að útfylltir verði skilalisti á heimasíðu ríkisskattstjóra. Hefur frestur til þess verið framlengdur til 28. febrúar n.k. vegna lögaðila undir fyrrgreindum stærðarmörkum. Á skilalista komi fram nafn þess lögaðila, sem sótt er um aukinn skilafrest fyrir, kennitala, netfang og ætlaður skilamánuður hvers þess lögaðila, sem ætlað er að annast skil fyrir.

Í lok bréfanna, þ.e. V. kafla, sem ber yfirskriftina; Eftirfylgni er fjallað um viðbrögð ríkisskattstjóra eftir að almennum og sérstökum skilafresti lýkur, þ.e. að áætlað verði vegna síðbúinna framtalsskila. Þó verði framteljendum send  ábending í tölvupósti um að skilafrestur sé að renna út og fagaðilum afrit. Þá verði einstökum endurskoðendum og bókurum gerð grein fyrir stöðu skila og frávikum eftir því sem tilefni er til.

Ríkisskattstjóri áréttar þann fyrirvara að komi í ljós að einstakir endurskoðendur eða bókarar fylgi ekki framangreindum skilmálum, m.a. um jöfn skil á árinu 2017 með viðunandi hætti, þá verði ekki unnt að veita viðkomandi fagaðila framlengdan skilafrest á næsta ári, f.h. viðskiptamanna sinna. Á þetta sérstaklega við, þegar skil eru óveruleg fyrir 1. ágúst eða fara verulega fram úr 40% eftir 1. ágúst 2017.

Að lokum skal enn ítrekað að forsenda fyrir framlengdum skilafresti er að skilalistar berist RSK ekki síðar en 28. febrúar n.k.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum