Fréttir og tilkynningar


Breytingar á aðflutningsgjöldum o.fl. við tollafgreiðslu vara sem taka gildi 1. janúar 2015

30.12.2014

Í upphafi er rétt að vekja á því athygli að vegna tæknilegrar vinnu við sameiningu sýslumannsembætta verður TBR lokað föstudaginn 2. janúar 2015. Þrátt fyrir lokun TBR er gert ráð fyrir því, að innflytjendur sem skuldfæra aðflutningsgjöld, geti tollafgreitt vöru með rafrænum hætti. 

Gjaldkerar Tollstjóra munu hins vegar ekki geta afgreitt tollskýrslur, þannig að tollafgreiðsla með staðgreiðslu verður ekki möguleg. Nánari upplýsingar eru í þessari tilkynningu á vef Tollstjóra.

Ábendingar


Efni tilkynningarinnar varðar m.a. innflytjendur, útflytjendur, tollmiðlara og hugbúnaðarhús, sem selja eða þjónusta hugbúnað til tollskýrslugerðar.

Almennt gildir að breytingarnar, sem hér eru til umræðu, taka til allra vara sem ótollafgreiddar eru 1. janúar 2015 nema annað sé tekið fram.

Útflutningur - Um útflutning gildir: Í útflutningsskýrslu skal nota tollskrárnúmer, skilmála þess og tollafgreiðslugengi sem í gildi er tollafgreiðsludag útflutningsskýrslunnar, en þó skal aldrei miða við nýrri dag en brottfarardag vörusendingar frá Íslandi, sem útflutningsskýrslan tekur til. Sama gildir þegar leiðrétta eða breyta þarf útflutningsskýrslum eftir tollafgreiðslu.

Innflutningur - Þegar leiðrétta eða breyta þarf aðflutningsskýrslum vegna þegar tollafgreiddra innfluttra vörusendinga, t.d. vegna of- eða vangreiddra gjalda, bera þær leiðréttingar aðflutningsgjöld skv. tollskrá, lögum og reglugerðum sem í gildi voru tollafgreiðsludaginn eða e.a. bráðabirgðatollafgreiðsludaginn og nota skal tollafgreiðslugengi þess dags. Tollskrárnúmer, skilmálar þeirra, gjöld og tollafgreiðslugengi innfluttra hraðsendinga miðast við þann dag þegar tollgæsla veitti leyfi til að afhenda sendinguna innanlands (langoftast komudagur sendingar til landsins).

Á vef Tollstjóra má skoða annarsvegar tegundir tolla og hinsvegar önnur aðflutningsgjöld og taxta þeirra fyrir og eftir 1. janúar 2015 með því að velja viðeigandi viðmiðunardagsetningu. Ennfremur fást upplýsingar um tollskrárnúmer, tolla og gjöld á þeim o.fl. í tollskránni á vef Tollstjóra.

Breytingar

1. Breytingar á virðisaukaskatti, nýir Ö5 11% og Ö6 24% gjaldakódar virðisaukaskatts

Taxti beggja þrepa virðisaukaskatts lækkar. Við tollafgreiðslu er sú breyting framkvæmd með því að teknir verða upp nýir gjaldakódar fyrir lægra og hærra þrep breytts virðisaukaskatts:
Ö5 Virðisaukaskattur 11% VSK
Ö6 Virðisaukaskattur 24% VSK
Ofangreinda gjaldakóda virðisaukaskatts þarf að stofna í tollskýrslugerðarhugbúnaði.

Til 31. desember 2014 gildir áfram neðangreint. Þessi virðisaukaskattur (gjaldakódar) getur áfram komið á t.d. hraðsendingar sem innfluttar og afhentar voru fyrir áramót en tollafgreiddar eru með aðflutningsskýrslu hjá Tollstjóra eftir áramót. Einnig ef verið er að leiðrétta aðflutningsskýrslur hjá tollstjóra eftir áramót sem tollafgreiddar eða bráðabirgðatollafgreiddar voru fyrir áramót
Ö3 Virðisaukaskattur 7% VSK
Ö4 Virðisaukaskattur 25,5% VSK

Heimild: 1. gr. laga nr. 124/2014 um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingu á fleiri lögum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta).

2. Vörugjöld, X1, X2, XA, XB, XC, XD og XE gjaldakódar falla úr gildi

Vörugjöld, X1, X2, XA, XB, XC, XD og XE gjaldakódar falla úr gildi frá og með 1. janúar 2015. Sjá nánar um gildistöku þessara breytinga í liðnum „Innflutningur" undir „Ábendingar" í upphafi þessarar tilkynningar.

Sjá einnig upplýsingar í þessari tilkynningu á vef Tollstjóra.

Heimild: 2. gr. laga nr. 124/2014 um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingu á fleiri lögum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta). Ennfremur eru breytingar á ýmsum lögum vegna brottfellingar laga nr. 97/1987 um vörugjald, sbr. 5. til 10. gr. tilvísaðra laga hér framar.

3. Nýtt úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki, BU gjald (kr/kg)

Nýtt úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki, BU gjald, sem er kr á kg vörunnar tekur gildi. Taxti gjalds er mismunandi eftir tollskrárnúmerum. Stofna þarf BU gjaldakóda í tollskýrslugerðarhugbúnaði. Gjaldið leggst á nettóþyngd, kg í reit 31 í aðflutningsskýrslu, ebl. E1.

Heimild: Lög nr. 125/2014 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, sbr. 23. og 24. gr. laganna sem breytir lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

4. Skilagjöld á einnota umbúðir drykkjarvara, G* gjöld, hækkanir

Taxti skilagjalds hækkar í 14,41 kr/stk en umsýsluþóknanir eru óbreyttar. Umsýsluþóknun er ekki á álumbúðum. Breytingarnar eru því þessar:

UmbúðirTaxtiUmsýsluþóknun kr/stk.SamtalsGjaldakódi
drykkjarvörukr/stkVarVerður
Stál14,415,00 19,41GB
Ál14,41 14,41GC
Gler>500ml14,414,30 18,71GD
Gler=<500ml14,413,10 17,51GE
Plastefni, litað14,412,55 16,96GF
Plastefni, ólitað14,411,01 15,42GG

Heimild: 9. gr. laga nr. 124/2014 um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingu á fleiri lögum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta). Sjá einnig 1. gr. reglugerðar nr. 1209/2014 um (10.) breytingu á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur.

5. Flutningsjöfnunargjald á olíuvörur, J1 til J5 gjöld, breytast

Taxtar flutningsjöfnunargjaldanna breytast og verða:
J1 Bifreiðabensín, 0,48 kr/lítra
J2 Flugsteinolía (þotueldsneyti), 0,14 kr/lítra
J3 Gasolía, 0,83 kr/lítra
J4 Flugvélabensín, 0,25 kr/lítra
J5 Aðrar olíur og blöndur til brennslu, 0,14 kr/kg

Heimild: Auglýsing nr. 1175/2014 um flutningsjöfnunargjald á olíuvörum.

6. Gjalddagar uppgjörstímabila vegna skuldfærslu aðflutningsgjalda við tollafgreiðslu; fyrirkomulag sem gilt hefur 2014 framlengt óbreytt fyrir árið 2015

Á árinu 2014 hafa verið í gildi tímabundið lengri greiðslufrestir (fleiri gjalddagar) á aðflutningsgjöldum. Framangreind ákvæði hafa verið framlengd til 31. desember 2015.

Þeir innflytjendur og tollmiðlarar sem stunda SMT/EDI tollafgreiðslu þurfa sérstaklega að skoða þessar breytingar m.t.t. þess að hugbúnaður þeirra til rafrænnar tollafgreiðslu virki rétt, þ.e. móttaka CUSTAR skeyta og úrvinnsla upplýsinga í þeim. CUSTAR skeytin eru tilkynningar frá Tollstjóra um tollafgreiðslu vörusendingar og skuldfærslu aðflutningsgjalda.

Heimild: Sjá 26. gr. laga nr. 125/2014 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Sjá ennfremur yfirlit yfir uppgjörstímabil og gjalddaga fyrir árið 2015 í þessu pdf skjali.

7. Fríverslunarsamningur EFTA og Bosníu Hersegóvínu, YO tegund tolls

Þessi fríverslunarsamningur tekur gildi um áramót. Kódi tegundar tolls er YO og landakódi BA, Bosnía Hersegóvína. Stofna þarf YO tegund tolls (kóda) í tollskýrslugerðarhugbúnaði. Allar nánari upplýsingar eru í þessari tilkynningu á vef Tollstjóra.

8. Undanþáguheimild, VSKÖT undanþágukódi, lækkun virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum framlengd til 31. desember 2015

Eftirfarandi heimild í ákvæðum til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt er framlengd til 31. desember 2015 (undanþágukódi VSKÖT): Við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar er heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið á um í ákvæði þessu. (Sjá nánar um ákvæðið í lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt)

Heimild: Sjá um framlenginguna í 27. gr. laga nr. 125/2014 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015.

9. Undanþáguheimild, LÖT18 undanþágukódi, lækkun á vörugjaldi (M* gjöld) af ökutækjum bílaleiga

Hámarks lækkun vörugjalds af ökutækjum sem bílaleigur leigja út lækkar úr 1.000.000 kr í 750.000 kr. frá og með 1. janúar 2015.

Heimild: Sjá 29. gr. laga nr. 125/2014 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015, sem breytir 3. mgr. 3. gr. í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

10. LRT leyfi í reit 14 í aðflutningsskýrslu, raf- og rafeindatæki, aðild að skilakerfi. LRT leyfið fellur úr gildi 1. janúar 2015

Vegna breytinga á fyrirkomulagi endurvinnslu raf- og rafeindatækja og umsýslukerfi því tengdu fellur niður skylda til að vísa í LRT leyfið í reit 14 í aðflutningsskýrslu, ebl. E1. LRT leyfiskódinn fellur því úr gildi frá og með 1. janúar 2015. Frá sama tíma leggst nýtt úrvinnslugjald, BU gjald, á raf- og rafeindatæki, sbr. lið 3 í þessari tilkynningu.

Heimild: Sjá 25. gr. laga nr. 125/2014 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Ennfremur lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, m.s.br., sbr. breyting á þeim með lögum nr. 63/2014 um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs (innleiðing tilskipunar 2008/98/EB, rafhlöður og rafgeymar, raf- og rafeindatæki).

11. Reglugerðir um tollkvóta

Reglugerð nr. 989/2014 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá Evrópubandalaginu.
Birt 10. nóvember 2014.
Gildir frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.

Reglugerð nr. 1004/2014 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á blómum, trjám o.fl.
Birt 14. nóvember 2014.
Gildir frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.

Reglugerð nr. 1005/2014 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á ostum frá Noregi.
Birt 14. nóvember 2014.
Gildir frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.

Reglugerð nr. 1138/2014 um (7.) breytingu á reglugerð nr. 1186/2013 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum samkvæmt viðaukum IVA og IVB við tollalög.
Birt 22. desember 2014.
Gildir frá 29. desember 2014 til 31. desember 2014.

Reglugerð nr. 1139/2014 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum samkvæmt viðaukum IVA og IVB við tollalög.
Birt 22. desember 2014.
Gildir frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.

12. Fækkun sýslumannsumdæma í 9

Sýslumannsumdæmum fækkar í níu umdæmi og sýslumannsumdæmin fá ný heiti. Hér eru fréttir með upplýsingum á vef innanríkisráðuneytisins, frétt frá 19. desember 2014, frétt frá 23. júlí 2014 og einnig frétt frá 14. maí 2014. Á það skal minnt að landið er eitt tollumdæmi (Tollstjóri). Rétt er að geta um breytt umdæmi varðandi hlutverk Tollstjóra sem innheimtumanns ríkissjóðs, sjá frétt á vef Tollstjóra: Breyting á fyrirkomulagi við innheimtu opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir: Lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Og reglugerð nr. 1060/2014 um innheimtumenn ríkissjóðs. Ennfremur reglugerð nr. 1151/2014 um umdæmi sýslumanna. Og reglugerð nr. 1150/2014 um umdæmi lögreglustjóra.

Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði

Tollskrárlyklar, sem taka gildi 1. janúar 2015 vegna tollafgreiðslu, eru aðgengilegir hér á vef Tollstjóra. Aðeins tollskrárlyklar vegna innflutnings taka breytingum.

Nánari upplýsingar

Um tæknilega framkvæmd: upplýsingatæknideild, rekstrar- og upplýsingatæknisviði, hjá Tollstjóra
ttu[hja]tollur.is.

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum